Námið
Í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er hægt að hefja hljóðfæranám á nánast hvaða aldri sem er, en það er þó háð líkamlegum þroska nemandans og því hljóðfæri sem hann velur. Fullt nám er kennt er í einkatímum, 60 mínútur á viku, sem algengast er að skiptist í 2 x 30 mínútur í senn. Undantekning frá þessu er þó nám byrjenda á fiðlu, víólu, selló, píanó og blokkflautu samkvæmt Suzuki-aðferðinni. Sérstakt lúðrasveitanám er einnig í boði þar sem ungir nemendur læra á þau hljóðfæri sem eru í lúðrasveit, kennt er 2 x 20 mínútur á viku auk einnar 60 mínútna lúðrasveitaræfingar.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er aðili að Prófanefnd tónlistarskóla sem starfar samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Við skólann eru því tekin próf samkvæmt reglum
Prófanefndar.
Um áfangapróf í hljóðfæra- og söngnámi
Hljóðfæra- og söngnámi Íslenskum tónlistarskólum er skipt niður í þrjá námsáfanga: Grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Við lok hvers námsáfanga eru tekin áfangapróf: Grunnpróf, Miðpróf og Framhaldspróf. Framhaldsprófið er undanfari háskólanáms í tónlist. Við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er það jafnframt brautskráning frá skólanum.
Áfangaprófin eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður.
Nokkur námsár geta liðið á milli áfangaprófanna, þar sem nemendur þurfa að hafa náð ákveðinni færni í tækni og túlkun tónlistar og ákveðin námsefnisyfirferð þarf að vera að baki.
Um almenn próf Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í hljóðfæra- og söngnámi
Hver tónlistarskóli ákveður fyrir sig hvernig innra námsmati utan áfangaprófa er hagað. Í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru námsáföngunum þremur skipt upp í minni einingar, sem lýkur annað hvort með prófi eða tónleikum þar sem nemendur fá skriflega umsögn.
Nánari upplýsingar um innra námsmat Tónlistarskóla Reykjanesbæjar má finna í pdf-skjali hér fyrir neðan.

