Próf

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er aðili að Prófanefnd tónlistarskóla sem starfar samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár. Við skólann eru því tekin próf samkvæmt reglum Prófanefndar(setja hlekk hér að reglunum) 

Um próf í hljóðfæra- og söngnámi

Hljóðfæra- og söngnámi í tónlistarskóla er skipt niður í þrjá námsáfanga: Grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Við lok hvers námsáfanga eru tekin áfangapróf: Grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf. Framhaldsprófið er undanfari háskólanáms í tónlist og jafnframt burtfararpróf frá skólanum. 

Áfangaprófin eru metin af sérþjálfuðum prófdómurum á vegum Prófanefndar tónlistarskóla. Til þess að áfangapróf séu fullgild, þurfa nemendur að ljúka viðeigandi námi í tónfræðagreinum á sama skólaári eða að hafa lokið því áður. 

Nokkur námsár geta liðið á milli áfangaprófanna, þar sem nemendur þurfa að hafa náð ákveðinni færni í tækni og túlkun tónverka og ákveðin námsefnisyfirferð þarf að vera að baki. 

Þeir nemendur sem ekki taka áfangapróf að vori taka árspróf. Árspróf innihalda alla þá sömu prófliði og áfangaprófin, en færri atriði af hverjum próflið og eru þau því smækkuð mynd af áfangaprófunum. Með því að taka árspróf árlega þau námsár sem líða á milli áfangaprófa, þjálfast nemendur í prófformi áfangaprófanna og ættu því að vera betur undirbúnir fyrir þau.