Velkomin í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Sunnudaginn 9. nóvember kl. 16:00 mun Strengjasveitin Spiccato spila Tchaikovsky Serenöðu fyrir strengi ásamt nokkrum styttri verkum. Með á tónleikunum leikur eldri strengjasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og einnig mun Gisselle Pinto, fiðlunemandi við skólann leika eitt verk við undirleik Spiccato. Tónleikarnir eru í Bergi, sal Tónlistaskólans og eru tæpur klukkutími að lengd. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir!

Föstudaginn 10. október eru allir tónlistarkennarar í FT (Félag Tónlistarskólakennara) á svæðisþingi svo kennsla fellur að mestu niður. Nemendur fá upplýsingar hver hjá sínum kennara, en langflestir kennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar kenna ekki þennan dag. Einnig má fá nánari upplýsingar á skrifstofu skólans sem verður opin, sími: 420-1400 eða tölvupóstur: tonlistarskoli@tonrnb.is .

Umsóknarferli í nýjum gagnagrunni íslenskra tónlistarskóla samræmist því miður ekki þeim kröfum um upplýsingar sem við gerum til umsókna um skólavist. Því biðjum við alla nemendur (forráðamenn) sem stunda nám við skólann á þessu skólaári, að svara þessum tölvupósti. • Þeir sem ætla að halda áfram námi næsta skólaár verða að svara þessum pósti með nafni nemanda og hvort hann ætli að halda áfram námi eða ekki. Allir verða að láta vita af eða á. • Ef þið þurfið að tilkynna breytingar á grunnupplýsingum, eins og um breytt netfang, símanúmer, heimilisfang eða beiðni um að skipta um hljóðfæri eða breyta námshlutfalli, biðjum við ykkur um að láta okkur vita, hvort sem það er um breytingu eða vegna beiðni um annað. Síðasti dagur til að svara þessum tölvupósti og þar með til að tryggja sér skólavist næsta skólaár, er föstudagurinn 9.maí n.k.

Þéttsveitin, ein af hljómsveitum Rytmískrar deildar skólans, heldur Stórkonsert í salnum okkar fína, Bergi í Hljómahöll, þriðjudaginn 25. mars kl. 20:00 ásamt valinkunnum söngnemendum deildarinnar. Yfirskrift tónleikanna er "Manstu ekki eftir mér?" Það verður ókeypis inn og við hvetjum eindregið til þéttrar mætingar. Hér er hlekkur á viðburðinn þar sem eru nánari upplýsingar um þessa áhugaverðu tónleika. https://fb.me/e/7dzfAlT6d

Óperustúdíó Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar halda söngtónleika í Bíósal Duus-húsa, Reykjanesbæ, sunnudaginn 2. mars kl. 16:00. Fluttar verða aríur eftir Mozart, Bellini, Puccini, Lehar, Herbert, Verdi, Ponichelli og Donizetti. Fram koma: Antonia Hevesi, píanó Birna Rúnarsdóttir, sópran Guðrún Hildur Jóhannsdóttir, sópran Ingi Eggert Ásbjarnarson, bassi Jelena Raschke, sópran Júlíus Karl Einarsson, tenor Linda Pálína Sigurðardóttir, sópran Marius Kraujalis, tenor Rosita Rozalinda Kraujalené, sópran Steinunn Björg Ólafsdóttir, sópran Ösp Birgisdóttir, mezzosópran Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Tónlistarskólar landsins eru um 90 talsins og standa fyrir fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Hátíðisdagur þeirra, „Dagur tónlistarskólans“, er haldinn 7. febrúar ár hvert. Þann dag fæddist Gylfi Þ. Gíslason sem var menntamálaráðherra frá 1956-1971, en hann hefur gjarnan verið kallaður „faðir íslenskra tónlistarskóla“. Gylfi kom því í gegn á ráðherratíð sinni að sveitarfélög sem hefðu hug á því að stofna tónlistarskóla fengju til þess styrk úr ríkissjóði sem næmi 25% af launakostnaði. Síðar var hann aðal hvatamaðurinn að því að launaframlag ríkisins var aukið í 50% sem varð sveitarfélögum enn meiri hvatning til að stofna tónlistarskóla og þá fjölgaði þeim umtalsvert. Íslenskt tónlistarlíf og -menntun mun alla tíð búa að framsýni Gylfa Þ. Gíslasonar og áhuga hans á aukinni, markvissri tónlistarmenntun þjóðarinnar. Í tilefni af Degi tónlistarskólanna hafa íslenskir tónlistarskólar efnt til ýmis konar viðburða og/eða kynninga í gegn um tíðina með það að markmiði að auka sýnileika og styrkja tengsl við nærsamfélagið. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur ekki verið eftirbátur annarra í því og hefur alla tíð haldið þessum degi á lofti. Á morgun, föstudaginn 7. febrúar, á „Degi tónlistarskólans“, efna nokkrir tónlistarskólar á suðvesturhorninu, m.a. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og Tónlistarskólinn í Garði, til svokallaðrar Hljómanætur sem rytmískrar deildir skólanna standa fyrir. Að þessu sinni verður Hljómanótt haldin í Garðaskóla í Garðabæ. Þá sameinast nemendur og æfa saman í hljómsveitum undir handleiðslu kennara deildanna. Dagskrá Hljómanætur lýkur svo með tónleikum á miðnætti. Sérstakir gestir verða Una Torfa og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir sem munu vinna sérstaklega með nemendum. En veislan heldur áfram og í tilefni af Degi tónlistarskólanna efnir skólinn til hljóðfærakynningar í Tónlistarskólanum, laugardaginn 8. febrúar n.k. fyrir nemendur í Forskóla 2, en það eru öll börn í Reykjanesbæ í 2. bekk grunnskólanna. Umfjöllun um hljóðfærakynninguna er hér á síðunni.






